Skýringar varðandi útfyllingu kærueyðublaðsins

ICE – 2022/1

I. Það sem þarf að vita áður en kærueyðublaðið er fyllt út
Hvaða kæruefni getur dómstóllinn tekið til skoðunar?

Mannréttindadómstóll Evrópu er alþjóðadómstóll sem getur eingöngu tekið til skoðunar kæruefni frá einstaklingum, samtökum og félögum sem halda því fram að brotið hafi verið á réttindum þeirra samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindasáttmálinn er alþjóðlegur sáttmáli sem fjölmörg evrópsk ríki hafa samþykkt til að tryggja tiltekin grundvallarréttindi. Réttindin sem eru tryggð eru sett fram í sjálfum mannréttindasáttmálanum og einnig í samningsviðaukum nr. 1, 4, 6, 7, 12 og 13, sem aðeins nokkur ríkjanna hafa samþykkt. Þú ættir að lesa þessa texta sem eru allir meðfylgjandi.

Mannréttindadómstóllinn getur ekki tekið fyrir allar tegundir kæruefna. Valdsvið hans er skilgreint út frá skilyrðum fyrir meðferðarhæfi kæra, sem sett eru fram í mannréttindasáttmálanum, sem setur takmörk varðandi hver getur lagt fram kæru, hvenær og varðandi hvað. Yfir 90% þeirra kæra sem Mannréttindadómstóllinn tekur til meðferðar er vísað frá. Því skal athuga hvort kæruefni uppfylli skilyrðin, sem lýst er hér fyrir neðan, til að teljast meðferðarhæf.

Mannréttindadómstóllinn getur eingöngu tekið mál til skoðunar ef

  • kæruefni er í tengslum við brot á einum eða fleiri réttindum sem sett eru fram í mannréttindasáttmálanum og samningsviðaukunum,
  • kæruefni snýr að ríki sem hefur fullgilt sáttmálann eða viðkomandi samningsviðauka (ekki hafa öll ríki fullgilt alla samningsviðauka og því skal fara yfir listann yfir fullgildingarnar á vefsíðu Mannréttindadómstólsins á www.echr.coe.int/applicants),
  • kæruefni tengist atriðum sem varða ábyrgð opinbers yfirvalds (löggjafa, stjórnsýslustofnunar, dómstóls, o.s.frv.); Mannréttindadómstóllinn getur ekki tekið fyrir kærur gegn einstaklingum eða einkareknum stofnunum,
  • kæruefni varðar aðgerðir eða atvik sem eiga sér stað eftir að ríki fullgildir mannréttindasáttmálann eða viðkomandi samningsviðauka (sjá dagsetningar fyrir hvert ríki á skránni yfir fullgildingar á heimasíðu Mannréttindadómstólsins á www.echr.coe.int/applicants),
  • þú hefur sjálfur orðið fyrir beinum áhrifum af brotum á grundvallarréttindum (ert með „stöðu brotaþola“),
  • þú hefur tæmt réttarúrræði heima fyrir til að leita leiðréttinga á brotum á réttindum („innlend réttarúrræði tæmd“); þetta þýðir að áður en kæra er lögð fyrir dómstólinn þarf almennt að hafa lagt fram sömu kæruefni fyrir innlenda dómstóla, þ.m.t. æðsta dómstig. Þetta felur í sér að farið sé eftir landsbundnum réttarfarsreglum, þ.m.t. varðandi tímamörk. Hins vegar þarf ekki að hafa notað úrræði sem hafa engin áhrif eða sækja um sérstök valkvæð eða óvenjuleg úrræði utan almennra málskotsleiða,
  • þú hefur lagt fram útfyllta kæru fyrir Mannréttindadómstólinn innan fjögurra mánaða frá því að endanlegur innlendur dómur var kveðinn upp. Þetta fjögurra mánaða tímabil er að jafnaði frá þeim degi þegar niðurstaða æðsta þar til bæra landsdómstóls eða stjórnvalds er kveðin upp eða birt þér eða lögmanni þínum. Ef engin raunhæf úrræði eru til staðar að því er varðar kæruefni telst fjögurra mánaða tímabilið vera frá degi athafnar, atviks eða úrlausnar sem kæruefnið varðar. Þetta tímabil er einungis rofið þegar þú sendir Mannréttindadómstólnum útfyllta kæru sem uppfyllir kröfurnar í reglu 47 í Reglum Mannréttindadómstólsins (sjá textann sem settur er fram í kærugögnunum). Tímabilinu lýkur á síðasta degi þessara fjögurra mánaða jafnvel þó hann beri upp á sunnudegi eða lögboðnum frídegi. Í stuttu máli: kærueyðublaðið, ásamt öllum tilskildum upplýsingum og skjölum, verður að senda Mannréttindadómstólnum á eða fyrir lokadag fjögurra mánaða tímabilsins, því skal þess gætt að póstleggja þau með góðum fyrirvara,
  • kæruefni þitt byggir á haldbærum sönnunum; þú skalt rökstyðja kæruefni með skýrri frásögn og styðja hana með skjölum, ákvörðunum, sjúkraskýrslum, vitnaskýrslum og öðru efni,
  • þú getur sýnt fram á að þau atriði sem kæruefnið fjallar um hafi með ósanngjörnum hætti falið í sér skerðingu á grundvallarréttindum. Þú getur ekki kært á þeim forsendum að dómsniðurstaða hafi verið ósanngjörn eða röng; Mannréttindadómstóllinn er ekki áfrýjunardómstóll fyrir landsdómstóla og getur ekki fellt úr gildi eða breytt dómsúrlausnum þeirra,
  • Mannréttindadómstóllinn eða annar alþjóðaaðili hefur ekki áður tekið til skoðunar kæruefni þitt.

Hafðu í huga að Mannréttindadómstóllinn tekur á móti tugum þúsunda kæruefna á hverju ári. Hann hefur því ekki úrræði til að skoða léttvæg eða endurtekin kæruefni sem eru haldlítil og eru ekki þess eðlis að alþjóðleg eftirlitsstofnun eigi að taka til skoðunar. Slíkum kæruefnum er hægt er að vísa frá á þeim forsendum að þau feli í sér misnotkun á kærurétti og einnig er slíkt hægt ef kærandi notar særandi eða móðgandi orðalag.

Ef það mál sem kært er vegna veldur kæranda engum raunverulegum skaða eða umtalsverðu óhagræði og vekur engin ný álitamál varðandi mannréttindi sem þarf að fjalla um á alþjóðavettvangi, kann málinu einnig að vera vísað frá.

Til að fá frekari upplýsingar varðandi þessi viðmið er hægt að hafa samráð við lögmann eða heimsækja vefsetur Mannréttindadómstólsins sem veitir upplýsingar varðandi skilyrði þess að mál sé meðferðarhæft og svör við algengum spurningum.

II. Hvernig fylla skal út kærueyðublaðið

Kröfurnar varðandi gilt kærueyðublað eru settar fram í reglu 47 í Reglum Mannréttindadómstólsins (þær er að finna í kærugögnunum); frekari upplýsingar eru veittar í Handbók um meðferðarhæfi kæra sem fylgir með reglunum og eru aðgengilegar á vefsetri Mannréttindadómstólsins á http://www.echr.coe.int/applicants. Hagnýtar útskýringar og leiðbeiningar eru settar fram hér fyrir neðan; þér er ráðlagt að lesa þær áður en eyðublaðið er fyllt út til að forðast að gera mistök sem koma í veg fyrir að kæran teljist fullnægjandi.

  • VERIÐ LÆSILEG. Helst ætti að vélrita.
  • FYLLIÐ ÚT ALLA REITI SEM EIGA VIÐ UM ÞÍNA STÖÐU. Ef ekki þá telst kærueyðublaðið ekki útfyllt og verður ekki tekið gilt.
  • Ekki nota tákn eða skammstafanir: útskýrið tilganginn með skýrum hætti.
  • VERIÐ GAGNORÐ.

Halið niður kærueyðublaðinu af vefsetri Mannréttindadómstólsins og fyllið það út rafrænt ef hægt er. Þetta mun flýta fyrir úrvinnslu málsins.

Tungumál

Opinber tungumál Mannréttindadómstólsins eru enska og franska en ef það er auðveldara fyrir þig þá er heimilt að skrifa skrifstofunni á opinberu tungumáli ríkis sem hefur fullgilt mannréttindasamninginn. Á fyrstu stigum málsmeðferðarinnar getur þú einnig fengið orðsendingar frá Mannréttindadómstólnum á því tungumáli. Athugið þó að á síðari stigum málsmeðferðarinnar, einkum ef Mannréttindadómstóllinn ákveður að biðja stjórnvöld um að leggja fram skriflegar athugasemdir varðandi kæruefnið, skulu öll bréfaskipti frá Mannréttindadómstólnum vera á ensku eða frönsku og einnig verður þess krafist að aðilar eða fyrirsvarsmenn þeirra noti ensku eða frönsku í síðari framlagningu.

Skýringar varðandi reitina á kærueyðublaðinu

Til að Mannréttindadómstóllinn telji kæru meðferðarhæfa verða allir viðeigandi reitir að vera útfylltir á tilgreindan hátt og leggja skal fram öll nauðsynleg gögn eins og sett er fram í reglu 47. Hafið þetta í huga þegar eyðublaðið er fyllt út og þegar fylgiskjölum er bætt við. Sé það ekki gert mun Mannréttindadómstóllinn ekki taka mál þitt til skoðunar, engin skrá opnuð og engin skjöl geymd.

Kærueyðublaðið – lið fyrir lið

Athugið að hugtökin sem notuð eru í kærueyðublaðinu og skýringunum byggjast á mannréttindasáttmálanum – skortur á kynjamiðuðu tungumáli miðast ekki að því að útiloka neinn.

Reitur fyrir strikamerki

Hafir þú þegar verið í bréfaskiptum við Mannréttindadómstólinn varðandi sama mál og verið úthlutað merkimiðum með strikamerki ætti að setja einn merkimiða með strikamerki í reitinn vinstra megin ofarlega á fyrstu blaðsíðu kærueyðublaðsins.

A. Kærandinn

A.1 Einstaklingur

Þessi liður gildir um kæranda sem er einstaklingur, andstætt lögaðila s.s. fyrirtæki eða samtök (liður A.2).

1–9. Ef kærendur sem eru einstaklingar eru fleiri en einn skal veita þessar upplýsingar um hvern viðbótarkæranda á aukablöðum. Auðkenna skal kærendur sem eru einstaklingar með númerum ef þeir eru fleiri en einn. Sjá einnig liðinn hér fyrir neðan: „Hópkærur og margir kærendur“.

6. Heimilisfang: kærandi skal gefa upp póstfang annað en það sem lögmaðurinn eða fyrirsvarsmaðurinn gefur upp svo að Mannréttindadómstóllinn geti haft samband ef þörf krefur. Kærandi sem er heimilislaus eða er ekki með fasta búsetu getur gefið upp númer pósthólfs eða samskiptaupplýsingar vinar en ætti að gefa skýringu á því.

A.2 Samtök

Þessi liður varðar kærendur sem eru lögaðilar s.s. fyrirtæki, frjáls félagasamtök eða samtök o.s.frv. Sé þessi liður fylltur út skal einnig fylla út lið D.1.

10–16. Fylla skal út auðkenni og samskiptaupplýsingar samtakanna sem eru kærandi. Ef slíkir kærendur eru fleiri en einn skal veita þessar upplýsingar um hvern viðbótarkæranda á aukablöðum. Auðkenna skal kærendur með númerum ef þeir eru fleiri en einn.

11. Kennitala: tilgreinið opinbera kennitölu eða það númer sem samtökunum var úthlutað í opinberri skrá eða færslu, ef slíkt er til staðar.

12. Dagsetning skráningar, stofnunar eða stofnsetningar einingarinnar ætti einnig að fylgja til að auðvelda sanngreiningu, hafi slíku verklagi verið fylgt.

Hópkærur og margir kærendur

Ef kærandi eða fyrirsvarsmaður leggur fram kæruefni fyrir hönd tveggja eða fleiri kærenda þar sem kærurnar eru byggðar á mismunandi málavöxtum ætti að fylla út sérstök kærueyðublöð fyrir hvern einstakling þar sem gefnar eru upp allar upplýsingar sem krafist er. Þau skjöl sem varða hvern kæranda ættu einnig að fylgja með kærueyðublaði þess einstaklings.

Ef kærendur eru fleiri en tíu skal fyrirsvarsmaður leggja fram, auk kærueyðublaðsins og gagnanna, töflu þar sem settar eru fram þær kenniupplýsingar sem krafist er fyrir hvern kæranda; þessari töflu er hægt að hala niður af vefsetri Mannréttindadómstólsins (sjá www.echr.coe.int/applicants). Ef fyrirsvarsmaðurinn er lögmaður ætti einnig að leggja töfluna fram á rafrænu formi (á geisladisk eða minnislykli).

Ef um er að ræða stóran hóp kærenda eða margar kærur geta kærendur eða fyrirsvarsmenn þeirra fengið þau fyrirmæli frá skrifstofunni að leggja textann í framlagningunni eða skjölin fram rafrænt eða með öðrum hætti. Skrifstofan getur gefið önnur fyrirmæli varðandi þær ráðstafanir sem þarf að gera til að auðvelda skilvirka og hraða vinnslu kæra.

Ef ekki er farið að leiðbeiningum skrifstofunnar að því er varðar eyðublaðið eða hvernig leggja skal fram hópkærurnar eða kærur, sem lagðar eru fram af mörgum kærendum, getur það leitt til þess að Mannréttindadómstóllinn taki ekki málið til meðferðar (sjá málsgreinar 5.1 og 5.2 í reglu 47).

B. Ríki sem kæran beinist gegn

17. Hakið við reit (reiti) ríkisins (ríkjanna) sem kæran beinist gegn.

Þessi liður varðar ríki sem þú telur bera ábyrgð á þeim málum sem kæruefnið varðar. Hafið í huga að kæruefni fyrir Mannréttindadómstólnum geta einungis beinst að skráðum löndum, sem hafa öll gerst aðilar að kerfi mannréttindasáttmálans.

C. Fyrirsvarsmaður (fyrirsvarsmenn) kæranda sem er einstaklingur

Aðilinn sem er tilnefndur sem fyrirsvarsmaður í þessum lið verður að undirrita í reit nr. 35; kærandinn verður að undirrita í reit nr. 33.

C.1 Fyrirsvarsmaður sem er ekki lögmaður

18–25. Sumir kærendur kunna að kjósa að taka ekki þátt í málsmeðferðinni, eða eiga ekki kost á því sjálfir, af ástæðum s.s. í tengslum við heilbrigði eða hæfisskort. Aðili án lögfræðilegrar menntunar getur verið í fyrirsvari fyrir þá, t.d. foreldri í fyrirsvari fyrir barn, eða forsjáraðili eða aðstandandi eða maki í fyrirsvari fyrir einhvern sem af hagkvæmnisástæðum eða heilsufarslegum ástæðum á erfitt með að taka þátt í málsmeðferðinni (t.d. kærandi sem er á sjúkrahúsi eða í fangelsi). Fyrirsvarsmaðurinn verður að tilgreina í hvaða hlutverki hann er sem fyrirsvarsmaður fyrir kærandann eða tengsl hans við kærandann, ásamt auðkenni og samskiptaupplýsingum. Ef liður C.1 er fylltur út og lögmaður hefur verið ráðinn þarf einnig að fylla út lið C.2 (sjá kafla C.2 hér að neðan).

C.2 Lögmaður

26–32. Leggja skal fram upplýsingar til að auðkenna lögmanninn sem kemur fram fyrir hönd kæranda fyrir Mannréttindadómstólnum ásamt ítarlegum samskiptaupplýsingum. Kærandi þarf ekki að ráða lögmann á því stigi þegar kæran er lögð fram. Kærandinn er upplýstur um þegar málið kemst á það stig málsmeðferðarinnar að þörf sé á leita sér aðstoðar lögmanns. Á þessu stigi – þegar Mannréttindadómstóllinn hefur tilkynnt viðkomandi stjórnvöldum um kæruna til að fá skriflegar athugasemdir – getur kærandinn átt rétt á réttaraðstoð ef hann hefur takmörkuð fjárráð til að greiða lögfræðikostnað og ef veiting slíkrar aðstoðar telst nauðsynleg fyrir tilhlýðilega framkvæmd málsins. Upplýsingar varðandi þetta eru sendar kærendum á viðeigandi tímapunkti.

C.3 Umboð

Þessi liður verður að innihalda upprunalegar undirskriftir.

33. Kærandi verður að undirrita umboð sem veitir fyrirsvarsmanninum heimild til að koma fram fyrir hans hönd nema ef kærandinn er t.d. barn eða skortir gerhæfi og getur ekki undirritað. Ef fyrirsvarsmaður sem er ekki lögmaður hefur ráðið lögmann fyrir hönd kæranda sem getur ekki undirritað ætti fyrirsvarsmaðurinn að undirrita umboðið fyrir hönd kærandans.

34 og 36. Dagsetningin sem krafist er er dagsetning undirritunar kæranda sem er einstaklingur og fyrirsvarsmanns hans.

35. Lögmaðurinn eða hver sá aðili sem kærandi ræður til að leggja fram mál fyrir Mannréttindadómstólinn verður að undirrita umboðið til að sýna fram á að viðkomandi samþykki umboðið. Ef slíka undirritun vantar getur skrifstofan haldið áfram að eiga bréfaskipti eingöngu við kærandann vegna skorts á sönnun þess að fyrirsvarsmaðurinn eigi í raun aðkomu að málinu.

Ekki senda aðskilið umboðseyðublað: Mannréttindadómstóllinn þarf að hafa allar viðkomandi upplýsingar um auðkenni og samskiptaupplýsingar á kærueyðublaðinu sjálfu. Kærandinn og fyrirsvarsmaður hans verða að undirrita þennan lið varðandi umboð við undirbúning kærunnar: lögmaður ætti ekki að leggja fram kærueyðublaðið og aðskilið umboðseyðublað nema til staðar séu óyfirstíganlegar hindranir sem lúta að framkvæmdinni. Það er eingöngu þegar kærandi skiptir um lögmann eða ræður lögmann eftir að hafa lagt fram kæru að Mannréttindadómstóllinn samþykkir aðskilið umboðseyðublað – kærendur skulu þá nota aðskilið eyðublað á vefsetri Mannréttindadómstólsins sem inniheldur allar þær upplýsingar sem krafist er. Ef aðskilið umboð er sent og því fylgir engin sannfærandi útskýring á því af hverju slíkt var óhjákvæmilegt þá mun kærunni synjað á grundvelli þess að ekki sé farið að reglu 47.

Rafræn samskipti milli fyrirsvarsmanns og dómstólsins

eComms er þjónusta á vegum Mannréttindadómstólsins fyrir rafræn samskipti við fyrirsvarsmenn kærenda. Þjónustan er eingöngu virkjuð ef og þegar mál kemst á það stig í málsmeðferðinni að viðkomandi stjórnvöldum er tilkynnt um kæruna.

37. Tölvupóstfangið sem er gefið upp mun verða notað til að búa til eComms-reikning. Lagt er til að fyrirsvarsmenn sem vinna á lögmannsstofu gefi upp almennt tölvupóstfang þannig að margir notendur innan lögmannsstofunnar geti notað reikninginn.

Tilkynna skal Mannréttindadómstólnum um allar breytingar á tölvupóstfanginu fyrir eComms-reikninginn.

Frekari upplýsingar um skilmála og skilyrði er að finna á vefsetri eComms (https://ecomms.echr.coe.int), og í skjalinu „Practice Direction on electronic filing by applicants“ (www.echr.coe.int/practicedirections) (eingöngu aðgengilegt á ensku og frönsku).

D. Fyrirsvarsmaður (fyrirsvarsmenn) kæranda sem er „samtök“

D.1 Fulltrúi samtaka

38–45. Kærandi sem er „samtök“ verður að aðhafast í gegnum einstakling sem hefur heimild til að aðhafast í hans nafni og sem Mannréttindadómstóllinn getur staðið í bréfaskiptum við þegar þörf krefur, s.s. fulltrúi fyrirtækis, formaður eða framkvæmdastjóri. Þessi aðili ætti að leggja fram skriflegt sönnunargagn um rétt hans til að flytja málið fyrir hönd samtakanna: þetta gæti, m.t.t. venju í viðkomandi landi, t.d. verið afrit af útdrætti úr félagaskrá eða skrá verslunarráðs, þinglýst umboð eða fundargerð stjórnarinnar. Ef þessi sönnunargögn eru ekki fyrirliggjandi skal leggja fram útskýringar á því.

Í þessum lið skal gefa upp fullt nafn og samskiptaupplýsingar einstaklingsins sem hefur heimild lögum samkvæmt til að koma fram fyrir hönd samtakanna.

Ef opinber fyrirsvarsmaður samtakanna er einnig lögmaðurinn sem kemur fram fyrir hönd samtakanna ætti að taka það skýrt fram með því að fylla út þennan lið og einnig lið D.2.

D.2 Lögmaður

46–52. Leggja skal fram upplýsingar til að auðkenna lögmanninn sem kemur fram fyrir hönd kæranda sem er samtök fyrir Mannréttindadómstólnum ásamt ítarlegum samskiptaupplýsingum. Kærandi þarf ekki að ráða lögmann á því stigi þegar kæran er lögð fram. Kærandinn er upplýstur um þegar málið kemst á það stig málsmeðferðarinnar að þörf sé á leita sér fyrirsvars lögmanns.

Aðilinn sem er tilnefndur sem lögmaður í þessum lið verður að undirrita í reit nr. 55; fyrirsvarsmaður kæranda sem er samtök verður að undirrita í reit nr. 53.

D.3. Umboð

Þessi liður verður að innihalda upprunalegar undirskriftir.

53. Fyrirsvarsmaður kærandans sem er samtök verður að undirrita hér til að veita lögmanni heimild til að koma fram fyrir hönd samtakanna.

54 og 56. Dagsetningin sem krafist er er dagsetning undirritunar fyrirsvarsmanns kæranda sem er samtök og lögmannsins.

55. Lögmaðurinn sem hefur málflutningsumboðs kæranda sem er samtök til að höfða mál fyrir Mannréttindadómstólinn verður að undirrita umboðið til að sýna fram á að viðkomandi samþykki umboðið. Ef slíka undirritun vantar getur skrifstofan haldið áfram að eiga bréfaskipti eingöngu við fyrirsvarsmann kærandans sem er samtök vegna skorts á sönnun þess að lögmaðurinn eigi í raun aðkomu að málinu.

Ekki senda aðskilið umboðseyðublað: Mannréttindadómstóllinn þarf að hafa allar viðkomandi upplýsingar um auðkenni og samskiptaupplýsingar á kærueyðublaðinu sjálfu. Fyrirsvarsmaður kærandans sem er samtök og lögmaðurinn verða að undirrita þennan lið varðandi umboð við undirbúning kærunnar: lögmaður ætti ekki að leggja fram kærueyðublaðið og aðskilið umboðseyðublað nema til staðar séu óyfirstíganlegar hindranir sem lúta að framkvæmdinni. Það er eingöngu þegar kærandi skiptir um lögmann eða ræður lögmann eftir að hafa lagt fram kæru að Mannréttindadómstóllinn samþykkir aðskilið umboðseyðublað – kærendur skulu þá nota aðskilið eyðublað á vefsetri Mannréttindadómstólsins sem inniheldur allar þær upplýsingar sem krafist er. Ef aðskilið umboð er sent og því fylgir engin sannfærandi útskýring á því af hverju slíkt var óhjákvæmilegt þá mun kærunni synjað á grundvelli þess að ekki sé farið að reglu 47.

Rafræn samskipti milli fyrirsvarsmanns og dómstólsins

eComms er þjónusta á vegum Mannréttindadómstólsins fyrir rafræn samskipti við fyrirsvarsmann kæranda sem er samtök. Þjónustan er eingöngu virkjuð ef og þegar mál kemst á það stig í málsmeðferðinni að viðkomandi stjórnvöldum er tilkynnt um kæruna.

57. Tölvupóstfangið sem er gefið upp mun verða notað til að búa til eComms-reikning. Lagt er til að fyrirsvarsmenn sem vinna á lögmannsstofu gefi upp almennt tölvupóstfang þannig að margir notendur innan lögmannsstofunnar geti notað reikninginn.

Tilkynna skal Mannréttindadómstólnum um allar breytingar á tölvupóstfanginu fyrir eComms-reikninginn.

Frekari upplýsingar um skilmála og skilyrði er að finna á vefsetri eComms (https://ecomms.echr.coe.int), og í skjalinu „Practice Direction on electronic filing by applicants“ (www.echr.coe.int/practicedirections) (eingöngu aðgengilegt á ensku og frönsku).

E, F og G: Efni kærunnar

58–65. Verið gagnorð. Ritið helstu upplýsingar varðandi málið: helstu málsatvik og ákvarðanir, og hvernig brotið hefur verið á réttindum aðila, án óviðkomandi bakgrunns- eða aukaatriða. Sleppið löngum tilvitnunum: það er alltaf hægt að vísa í fylgiskjöl. Málsatvikin og kæruefnið ætti að setja fram innan þess pláss sem gefið er í kærueyðublaðinu til að gera Mannréttindadómstólnum kleift að ákvarða eðli og umfang kærunnar án tilvísana í annað efni. Þessar upplýsingar varðandi mál aðila eru nauðsynlegar fyrir rétta og skjóta greiningu á kæru aðila og þær verða að vera á blaðsíðunum sem eru í kærueyðublaðinu, ekki á meðfylgjandi fylgiskjölum. Þetta ætti að vera skýr og gagnorð lýsing á málsatvikum, kæruefni og um meðferðarhæfi kæru sem auðvelt er að lesa og því skal forðast að reyna að koma öllum smáatriðum fyrir á þessu plássi. Sem dæmi er ekki ásættanlegt að skilja þessar blaðsíður eftir óútfylltar með tilvísuninni „sjá meðfylgjandi viðauka“. Ef þessi krafa um að fylla út viðeigandi upplýsingar í takmarkaða plássinu sem gefið er á kærueyðublaðinu er ekki uppfyllt þá þýðir það að Mannréttindadómstóllinn getur ekki tekið málið til skoðunar.

Ef nauðsyn krefur er hægt að bæta upplýsingum eða útskýringum við kærueyðublaðið í viðauka (aðskilið skjal). Blaðsíðufjöldinn má ekki fara yfir 20 í heildina (innifalið í því eru ekki fylgiskjöl í formi ákvarðana og skjala). Þetta þýðir ekki að aðili geti byrjað á framlögðum texta í eyðublaðinu og haldið áfram með hann á viðbótarblöðunum þar til 20 blaðsíðum er náð. Þessar 20 blaðsíður eru til viðbótar við gagnorða lýsingu á málsatvikum, kæruefni og um meðferðarhæfi kæru sem verður að setja fram í viðeigandi hlutum eyðublaðsins. Ekki er heimilt að bæta við nýjum kæruefnum í slíkum viðauka sem einungis ætti að nota til að skýra frekar kæruefnið sem þegar hefur verið sett fram í kærueyðublaðinu sjálfu.

Athugið að ef mál er tilkynnt stefndum stjórnvöldum til að gera athugasemdir er kærandanum veitt tækifæri til að svara með því að leggja fram ítarleg andmæli.

Allar framlagningar verða að vera vel læsilegar og ef frekari framlagningum er bætt við, til viðbótar við málsatvikalýsingu, kæruefni og um meðferðarhæfi kæru á kærueyðublaðinu, skulu þær:

  • ef vélritaðar, settar fram í leturstærð sem er a.m.k. 12 punktar í meginmáli textans og 10 punktar í neðanmálsgreinum,
  • ef um er að ræða viðauka, settar fram á A4-blaðsíðu með spássíu sem er a.m.k. 3,5 cm á breidd,
  • hafa blaðsíður í númeraröð, og
  • hafa skiptingu í númeruðum liðum.

Almenna reglan er sú að allar upplýsingar í kærueyðublaðinu og skjölum sem eru lögð fram fyrir skrifstofuna, þ.m.t. upplýsingar varðandi kæranda eða þriðja aðila, verða aðgengilegar almenningi. Enn fremur geta slíkar upplýsingar verið aðgengilegar á Netinu í gegnum gagnagrunn Mannréttindadómstólsins, HUDOC, ef Mannréttindadómstóllinn setur þær fram í málsatvikalýsingu sem er gerð fyrir tilkynninguna um málið til stefndra stjórnvalda, í úrskurði um hvort kæra sé meðferðarhæf eða um frávísun hennar, eða í dómi. Til samræmis við það ætti aðili eingöngu að veita þær upplýsingar varðandi einkalíf sitt eða þriðja aðila sem teljast nauðsynlegar varðandi skilning á málinu.

Ef aðili vill ekki að auðkenni hans sé gert opinbert almenningi verður hann að taka það fram og setja fram ástæður þess að víkja ætti frá hinni hefðbundnu reglu um aðgengi almennings að upplýsingum í málsmeðferðinni. Mannréttindadómstóllinn getur heimilað nafnleynd í sérstökum og tilhlýðilega rökstuddum tilvikum.

E. Málsatvikalýsing

58–60. Verið skýr og gagnorð. Gefið upp nákvæmar dagsetningar.

Setjið fram í tímaröð. Setjið atburði fram í þeirri röð sem þeir gerðust.

Ef kæruefni aðila tengist mörgum mismunandi málum (t.d. mismunandi málarekstri fyrir dómstóli) skal lýsa málavöxtum í hverju máli sérstaklega.

Aðili verður að leggja fram skjöl til stuðnings máli sínu, einkum afrit af viðkomandi ákvörðunum eða skjölum af hvaða tagi varðandi kæruefnið: t.d. tilkynningu um útburð eða fyrirmæli um að verða vísað úr landi. Einnig þarf aðili að leggja fram skrifleg sönnunargögn til stuðnings fullyrðingum sínum s.s. sjúkraskýrslur, vitnaskýrslur, eftirrit, afsal eða skýrslur um tímabil sem setið var í gæsluvarðhaldi. Ef aðili getur ekki fengið afrit einstakra skjala skal útskýra hvers vegna ekki.

F. Greinargerð um meint brot á sáttmálanum og/eða samningsviðaukum og viðeigandi rök

61–62. Fyrir hvert kæruefni verður aðili að tilgreina þá grein mannréttindasáttmálans eða samningsviðaukans sem skírskotað er til og gefa stutta útskýringu á því hvernig brotið hafi verið í bága við hana.

Útskýra skal eins nákvæmlega og hægt er hvert kæruefnið er samkvæmt mannréttindasáttmálanum. Gefa skal upp hvaða ákvæða mannréttindasáttmálans aðili vísar til og útskýra af hverju þeir málavextir sem settir hafa verið fram fela í sér brot á því ákvæði. Slíkar útskýringar þarf að gefa fyrir hvert kæruefni.

Dæmi:

1. mgr. 6. gr.: einkamál varðandi bótakröfu mína vegna áverka tók óhóflega langan tíma þar sem það varði í yfir tíu ár, frá 10. janúar 2002 til 25. apríl 2012.

G. Uppfylling skilyrða þess að mál sé meðferðarhæft sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 35. gr. mannréttindasáttmálans (upplýsingar varðandi að innlend réttarúrræði séu tæmd og fjögurramánaða tímamörkin)

63. Hér verður að sýna fram á að aðili hafi gefið ríkinu tækifæri á að ráða bót á meintu broti áður en hann snýr sér að alþjóðlegri lögsögu Mannréttindadómstólsins. Þetta þýðir að aðili verður að útskýra að hann hafi tæmt öll tiltæk réttarúrræði í viðkomandi landi.

Fyrir hverja kæru samkvæmt mannréttindasáttmálanum eða samningsviðaukum skal skýra frá eftirfarandi:

  • nákvæmri dagsetningu lokadóms, heiti dómstólsins og eðli dómsins,
  • dagsetningu annarra úrlausna dómstóla á neðri stigum sem leiddu til lokadómsins, og
  • skrásetningarnúmer málsins í innlendum málsmeðferðum.

Munið að bæta við afritum af öllum úrlausnum dómstóla eða annarra aðila sem fara með ákvarðanatöku frá neðsta stigi til þess æðsta; einnig skal leggja fram afrit af kæruefnum eða kærum til dómstólanna og greinargerð kæranda þar sem kemur fram að kæruefni tengt mannréttindasáttmálanum hafi verið lagt fram á öllum stigum.

Einnig þarftu að sýna fram á að þú hafir lagt fram kæruefni til Mannréttindadómstólsins innan fjögurra mánaða frá því að endanlegur dómur féll að lokinni málsmeðferðinni þar sem innlend réttarúrræði að því er varðar það kæruefni voru tæmd. Það skiptir því höfuðmáli að tilgreina dagsetningu lokadómsins. Aðili verður að leggja fram sönnun fyrir þessu, annaðhvort með afriti af dómnum þar sem dagsetningin kemur fram eða, hafi aðili ekki fengið afrit af lokadómnum á þeim degi þegar hann var kveðinn upp eða birtur, sönnun fyrir dagsetningu birtingar, t.d. sönnun um móttökudagsetningu, eða afriti af skráðu bréfi eða umslagi. Ef engin réttarúrræði hafa staðið til boða verður aðili að sýna fram á að hann hafi lagt fram kæruefni innan fjögurra mánaða frá athöfn, ráðstöfun eða úrlausn sem kæruefnið varðar og leggja fram skriflegt sönnunargagn fyrir dagsetningu athafnar, ráðstöfunar eða úrlausnar.

64–65. Hér skal skýra frá því hvort réttarúrræði hafi staðið til boða sem aðili hafi ekki nýtt sér. Ef svo skal hann færa rök fyrir því af hverju þau voru ekki nýtt.

Frekari gagnlegar upplýsingar varðandi að innlend réttarúrræði séu tæmd og að fjögurra mánaða tímamörk séu virt er að finna í „Handbók um meðferðarhæfi kæra“ (e. Practical Guide on admissibility criteria) (www.echr.coe.int/applicants).

H. Upplýsingar varðandi aðra alþjóðlega málsmeðferð (ef til staðar)

66–67. Þú verður að tilgreina hvort þú hafir lagt efni kærunnar fyrir í annarri málsmeðferð til rannsóknar eða úrlausnar á alþjóðavettvangi, t.d. fyrir stofnun Sameinuðu þjóðanna s.s. Alþjóðavinnumálastofnunina eða mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna eða alþjóðlegan gerðardóm. Hafi slíkt verið gert skaltu veita nákvæmar upplýsingar, þ.m.t. um heiti stofnunarinnar sem þú lagðir kæruefni fyrir, dagsetningar og upplýsingar varðandi þá málsmeðferð sem fór fram og upplýsingar um ákvarðanir sem teknar voru. Einnig skal leggja fram afrit af viðkomandi ákvörðunum og öðrum skjölum.

68–69. Fyrri kærur eða kærur sem dómstóllinn hefur til meðferðar: Þú ættir einnig að tilgreina hvort þú sem kærandi hafir, eða hafir haft, aðrar kærur til meðferðar hjá Mannréttindadómstólnum og, ef svo, gefa upp kærunúmerið (kærunúmerin). Það er brýnt að aðstoða Mannréttindadómstólinn við skráningu, heimt og úrvinnslu mismunandi kæra undir heiti kæranda.

I. Skrá yfir fylgiskjöl

70. Þú verður að láta fylgja með skrá, númeraða og í tímaröð, yfir alla dóma og úrlausnir sem um getur í liðum E, F, G og H á kærueyðublaðinu ásamt öllum öðrum skjölum sem þú vilt að Mannréttindadómstóllinn taki tillit til sem sönnunargögn sem styðja fullyrðingu þína um brot á mannréttindasáttmálanum (eftirrit, vitnaskýrslur, sjúkraskýrslur o.s.frv.). Tilgreina skal í skránni yfir skjölin blaðsíðunúmerið þar sem finna má hvert skjal í bunkanum svo að Mannréttindadómstóllinn geti fundið þau með auðveldum hætti. Ef plássið á kærueyðublaðinu dugar ekki er heimilt að bæta við framhaldsblaði.

Læsileg afrit af skjölunum í heild sinni, sem um getur í skránni, skulu fylgja með.

Engum skjölum verður skilað. Það er því í hag kæranda að leggja fram afrit en ekki frumrit.

Kærandi VERÐUR:

  • að raða skjölunum í röð eftir dagsetningu og málsmeðferð,
  • gefa blaðsíðunum númer í röð, og
  • EKKI hefta, festa saman eða líma skjölin.

ÁMINNING: Það er á ábyrgð kæranda að gera tímanlegar ráðstafanir til að fá allar upplýsingar og skjöl sem krafist er fyrir útfyllta kæru. Hafi aðili ekki lagt fram eitt eða fleiri þeirra nauðsynlegu skjala verður kæra aðila ekki talin útfyllt og Mannréttindadómstóllinn mun ekki taka hana til skoðunar, nema aðili hafi veitt viðunandi útskýringar á því af hverju hann gat ekki lagt fram þau gögn sem vantar.

Athugið að af öryggisástæðum verður kærum sem innihalda grunsamlega hluti eytt.

Yfirlýsing og undirskrift

Þessi liður verður að innihalda upprunalegar undirskriftir.

72–73. Allir kærendur, eða fyrirsvarsmenn með heimild, verða að undirrita yfirlýsinguna. Enginn annar getur gert slíkt.

Staðfesting á samskiptafulltrúa

74. Skrifstofa dómstólsins mun eingöngu vera í skriflegum samskiptum við einn kæranda eða einn fyrirsvarsmann, þannig að ef kærendur eru margir og ekki er búið að tilnefna fyrirsvarsmann, ætti að tilgreina einn kæranda sem þann aðila sem skrifstofan á að vera í samskiptum við. Ef kærandi er með fyrirsvarsmann þá mun skrifstofan eingöngu vera í skriflegum samskiptum við einn fyrirsvarsmann. Sem dæmi þarf kærandi sem er með fleiri en einn lögmann því að tilgreina lögmanninn sem mun sjá um skriflegu samskiptin við Mannréttindadómstólinn.

III. Upplýsingar um framlagningu kæru og meðferð hennar

A. Aðferðir við framlagningu kæru

Kærur til Mannréttindadómstólsins er eingöngu hægt að leggja fram í pósti (ekki í gegnum síma). Þetta þýðir að pappírsútgáfa kærueyðublaðsins með upprunalegri undirskrift/-skriftum kæranda/kærenda og/eða fyrirsvarsmanns/-manna verður að senda í pósti. Móttaka á kæru sem er send í gegnum bréfsíma telst ekki fullgerð kæra þar sem Mannréttindadómstóllinn þarf að fá upprunalega undirritaða kærueyðublaðið í hendurnar. Það þjónar engum tilgangi að þú komir til Strassborgar í eigin persónu til að standa fyrir máli þínu munnlega.

Kærueyðublaðinu er hægt að hala niður af vefsetri Mannréttindadómstólsins á www.echr.coe.int/applicants.

Sendið kærueyðublaðið til:

The Registrar
European Court of Human Rights
Council of Europe
67075 STRASBOURG CEDEX
FRANCE

B. Meðferð kærunnar

Aðeins þegar Mannréttindadómstóllinn hefur móttekið útfyllt kærueyðublað með fylgiskjölum mun hann opna skrár og geyma samskipti og skjöl.

Við móttöku kærueyðublaðsins mun skrifstofa Mannréttindadómstólsins staðfesta að það innihaldi allar þær upplýsingar og skjöl sem krafist er. Ef það er ekki raunin mun aðili fá svar þess efnis að reglu 47 hafi ekki verið fylgt, að engin skrá hafi verið opnuð og að engum skjölum hafi verið haldið eftir. Aðili hefur þá þann valkost að leggja fram nýja kæru: þetta þýðir að leggja þarf fram útfyllt kærueyðublað og öll viðkomandi skjöl og ákvarðanir, jafnvel þó að aðili hafi sent sumar þeirra upplýsinga áður. Ófullgerðar framlagningar verða ekki samþykktar.

Skrifstofa dómstólsins getur ekki veitt aðila upplýsingar varðandi lög ríkisins sem kæruefni aðila beinist gegn eða veitt lögfræðiráðgjöf varðandi kæruna og túlkun á landslögum.

Þegar aðili sendir inn kæru ætti hann að halda eftir eintaki af eyðublaðinu eins og hann fyllti það út, ásamt upprunalegu skjölunum, þannig að þegar skrifstofan tilkynnir aðila að kæran hafi verið ófullgerð þá getur hann, ef hann vill, lagt fram nýja og útfyllta kæru án vandkvæða eða ótilhlýðilegra tafa. Engin trygging er fyrir því að ef kærueyðublaðinu er hafnað sem ófullgerðu að það verði nægur tími fyrir aðila til að leggja fram nýja kæru innan fjögurra mánaða tímamarkanna. Af þessum sökum ætti aðili að gæta þess að leggja fram útfyllt kærueyðublað ásamt öllum nauðsynlegum fylgiskjölum með góðum fyrirvara.

Ef kærueyðublaðið sem er lagt fram er útfyllt kann aðili að fá svar frá skrifstofu dómstólsins sem tilkynnir honum að skrá (þar sem númer hennar er það sem verður að nota í öllum síðari bréfaskiptum) hafi verið opnuð í hans nafni og sendingu af merkimiðum með strikamerki (sem aðili ætti að setja á öll síðari bréfaskipti).

Skrifstofa dómstólsins getur einnig haft samband við aðila til að biðja um frekari upplýsingar eða nánari útlistun. Það er aðila í hag að svara öllum orðsendingum skrifstofunnar fljótt þar sem nýlega opnuðum skrám, sem eru óvirkar, verður eytt að sex mánuðum liðnum. Enn fremur ætti aðili að athuga að þegar máli hefur verið úthlutað til skoðunar hjá Mannréttindadómstólnum þá geta allar tafir á svari, eða ef ekkert svar berst við bréfaskiptum frá skrifstofu dómstólsins eða að ekki séu veittar frekari upplýsingar og skjöl, verið túlkaðar sem svo að aðili vilji ekki halda málinu áfram. Þetta kann að leiða til þeirrar niðurstöðu að Mannréttindadómstóllinn taki ekki kæruna til skoðunar eða telji hana ekki tæka eða tekur hana af málaskrá sinni.

C. Engin dómstólagjöld

Mál aðila verða tekin til meðferðar án endurgjalds. Aðila verður sjálfkrafa gert viðvart um allar ákvarðanir Mannréttindadómstólsins.